Pistill satans!!!
Ég vil þakka Jóni fyrir frábært “comment”. Það er alltaf gaman að lesa skrif frá Jóni enda með gáfuðustu mönnum. Hann er líka réttlátur og lætur ekki tilfinningar hlaupa með sig í gönur, sem er eitthvað sem ég mætti alveg temja mér. Ég held að ef Jón hefði meiri völd þá væri örugglega margt betra og það meina ég.
Ætla aðeins að fá að koma með smá punkta
Það er rétt að auðvitað þarf að vernda upplýsingar varðandi laun fólks og hver sem vill á ekkert að fá að gramsa í þeim. En svo er reyndar spurning þar sem skatturinn fær skýrslu frá mér á hverju ári, og getur með því móti fylgst eilítið með því hvort ég er að gera einhvern óskunda og hvort ég skuldi í skatt o.s.frv., væri það nokkuð eins og að míga á leiði að reyna að koma á fót einhverju kerfi til að gæta þess að svona mismunun í launum milli kynja eigi sér ekki stað?? Bara pæling! Auðvitað er fólk misgóðir starfsmenn og að sjálfsögðu ber að borga þeim eftir því, en það er líka fullt af hreinlega óþarfa óréttlæti sem á sér stað. Það ber að uppræta, það er eflaust ákaflega vandasamt verk, því get ég trúað. Persónulega hef ég ekki lausn á því enda var ég ekki kosin í ríkisstjórn, og mun aldrei verða, enda kann ég bara á píanó og veit ekki einu sinni hvað “verðbólga” er í raun og veru. Hins vegar verð ég að segja að ég er farinn að hallast að því að koma þessu “Duglegustu fá mest borgað”-kerfi inn í músík bransann. Það er að segja ef ég er með píanóið að trúbba með Ingvari þá fái hann borgað spes fyrir lagið sem hann spilaði einn meðan ég fór á klósettið og þar sem ég “compa” hljóma með hægri hendinni, spila bassan með þerri vinstri og syng þá fái ég 3 hluta en hann bara 2 þar sem hann “strummar” á gítar og syngur. En þetta er nú bara djók pæling.
Fordómar gagnvart sjálfstæðismönnum?? Ég held kannski að ég sé svolítið harður og, jú, fordómafullur gagnvart þeim. Ég er líka með svaka fordóma gagnvart mönnum á jeppum, og fólki sem á óstýriláta hunda. Kannski er þetta bara einhver hroki og gremja, jafnvel brundstíflugremja! Eitt finnst mér glatað: Þegar sjálfstæðismenn sem er algjörir vitleysingar og hafa margoft sýnt það og sannað er bara álitnir svona skondnar súkkulaðikleinur af þeim sem styðja flokkinn. Einhvern tíman þegar ég minntist á hvað mér finnst Pétur Blöndal vera mikil hálfviti þá kom bara “já.. æji það er ekkert að marka hann”. En auðvitað er stjórnmálaflokkur skipaður af misjöfnum karakterum og ekki hægt að dæma öll eplin ónýt þó eitt sé það, en maður hefur vissulega mun minni lyst á þeim. Held samt að þetta sé nú meira í nefinu á mér en annað.
Hvað varðar að konur eigi að hafa metnað í að komast í stjórnunarstöður þá tel ég þann metnað vera algjörlega til staðar og ótrulega mikið hefur breyst á bara síðustu 50 árum. En það eru ekkert allar konur að sækjast eftir því að vera “boss”. Flestar konur sem eru á vinnumarkaðnum hafa góðan metnað bara í því sem þær eru að gera og karlmenn líka. Þær eiga ekki að þurfa samt að hafa einhvern metnað til að sækjast eftir stjórnunarstöðu til að fá jafn há laun og karlmenn. Ingvar sagði: “Í þeim fyrirtækjum sem konur eru í stjórnunarstöðum er yfirleitt minna, eða jafnvel ekkert, talað um launamun karla og kvenna. Sjá til dæmis álverið hennar Rannveigar Rist.Konur virðast nefnilega eiga auðveldara með að biðja aðrar konur um launahækkun, og jafnvel að yfirkonurnar taki betur í kröfur undirkvennanna á móti.Því er þessi fullyrðing ónefndu sjálfstæðiskonunnar, sem minnst er á í bloggfærslunni, fyllilega í takt við raunveruleikann. “ Þetta finnst mér svolítið einkennilegt. Þarna setur hann upp þær forsendur að konur sem vinna hjá fyrirtækinu og eru á lægri launum eigi bara möguleika á að stemma stigu við laun karlmanna í sama fyrirtæki ef það er kona við stjórnvölinn. Erum við þá búinn að gefast upp á að karlkyns stjórnendur geti veitt þeim það sem þeim ber?? Ef svo er þá er auðveldlega hægt að álykta að fullyrðing ónefndu konunnar sé einmitt röng, þar sem konur eiga aldrei eftir að verða í öllum stjórnunarstöðum (enda væri það ekki það sem verið er að sækjast eftir) og þar af leiðandi minni líkur á því að þessi ágæta launahækkun eigi sér stað. Svo að þarna finnst mér Ingvar vera að tala út um rassgatið á sér.
Held nú ekki að þetta hafi verið Elín Hirst. Ég heyrði þetta í “úpartinu” og mér heyrðist þetta vera konan sem sá um spurningaþáttinn “Þetta var helst...”, þessi sem geibblaði alltaf munninn voða mikið. Annars vil ég benda á að “burt séð frá kyni”-frasinn á finnst mér ekki við í þessari umræðu þar sem við erum einmitt að kljást við vanda sem gæti kallast “Séð frá kyni”. Þessi mjög greinilegi launamunur er nefnilega á milli kynja. Ég er þó ekki að segja að það eigi að taka inn konu í annaðhvert starf í stað fyrir aðra harðduglega karlmenn. Ég bara að segja að þær eigi að fá jafnhá laun fyrir sömu vinnu. Svo geta menn alveg verið ósammála um hvort þetta launamisrétti eigi sér stað. Ingvar er til dæmis á því að þetta sé allt saman bara samsæri. En það er önnur Ella og annar Alli.
Hvað góðærið varðar þá verð ég að segja að forgangsröðun þessara ágætu lífsgæða er ákaflega misskipt. Meðaljóninn getur nú vel við unað það er alveg rétt, en við vitum betur um hina verst settu til að geta bara brosað endalaust. Hvað þennan gríðarlega launamun varðar þá er ég feginn að Jón er sammála. Margir telja að ef einn græðir þá græða allir þeir sem eru undir honum. Það er örugglega mikið til í því ég á svo erfitt með að vera alveg fullkomlega sammála þessu. Þeir sem eru hæfastir (af hvaða ástæðu sem það er) geta, jú, gripið langflest eggin úr körfunni en að þeir deili þeim bróðurlega á milli hinna er eitthvað sem mér finnst vera minna um. Að sjálfsögðu á ekki að letja fólk með því að taka af þeim of mikið af þeim peningum sem þau hafa unnið hörðum höndum fyrir. En það er svo skrítið með hægrisinnaða einstaklinga sem ég heyrt tala um þetta að þeir fara alltaf að æpa “kommúnisti, kommúnisti” um leið nefnt hvort hægt sé að búa svo um hnútana að hluti af þessum gríðarlega gróða geti einhvern veginn bætt hag hinna sem koma verst út. Þetta er svona eins og ef ég myndi spyrja “heyrðu áttu nokkuð eitthvað eilítið ætilegt, brauðsneið eða eitthvað, ég er alveg hrikalega svangur” þá yrði svarið: “Nú jæja.. vilt ekki bara taka allt sem ég á!! Viltu ekki bara eiga ísskápinn minn líka.. og konuna mína??”. Svo koma þeir líka alltaf með frasann: “Eiga ekki bara allir að vera með sömu lágu launin?? Viltu það??” Ég meina kommon.. það var enginn að tala um það!! Svo finnst mér óþolandi þegar ónefndir aðilar kalla mann kommúnista og það meira að segja áður en ég byrjaði að koma með einhverjar yfirlýsingar varðandi þessi málefni. Það er kannski þess vegna sem maður notar ljót orð um sjálfstæðismenn, vegna þess að orðið “kommúnisti” er oftast notað sem ljótt orð, eitthvað þarf maður að gera til að stemma þetta af.
Slagkraftur er aftur á móti fallegt orð, takk fyrir það, Jón. Jú þessi slagkraftur er í raun vopnið sem er verið að nota. Mér finnst ótrúlega magnað að sjá skrif hans Ingvars þar sem hann segir: “Ég held að það væri gott start í jafnréttisbaráttu kvenna ef þær drulluðust til að vinna í allan dag en ekki labba út klukkan tvö. Það gæti mögulega verið ein af ástæðunum fyrir meintum launamun að konur labba bara út þegar þeim sýnist”. Ég held reyndar nokkuð örugglega að hann hafi verið að djóka, líkt og þegar ég skrifaði að allar konur væru heimskar. Það er oft gaman af varpa svona bombum og fylgjast með viðbrögðum fólks. En burtséð frá því þá held ég að þetta sé hugunarháttur sem loðir við allt of marga. Kennarastarfið er vissulega göfugt og gífurlega mikilvægt starf, sérstaklega þar sem uppeldi barna okkar er oft að stórum hluta í höndum kennaranna. Ég myndi telja mun frekar að stjórnendur þessa lands séu að “gambla” með framtíð þessara barna og unglinga með því að borga kennurum skammarlega lág laun. Verkföllinn eru beinlínis til þess gerð að varpa ljósi á þá staðreynd!! Kennarar að mínu mati þurfa þó alltaf að hafa einhverja “passion” fyrir sínu starfi en það nær bara svo og svo langt.
Já já, fjölskyldumynstrið hefur svo sannarlega breyst og hugtakið “fjölskylda” sem notað var um örugglega 20 manna hóp hér áður fyrir þýðir bara ca. 4-6 manneskjur í dag. Svo held ég líka að einstaklingshyggjan hafi breytt þessu rosalega mikið. Fólk í dag virðist vera betur í stakk búið til að standa meira á sínum eigin fótum og er ekki eins nauðugt til að styðja sig við aðra í kringum sig. En það er vissulega góður punktur hjá þér að fólk í dag er rosalega fljótt að gefast upp. En ég held líka að það sé svolítið þessu nútíma þjóðfélagsmynstri að kenna, lífsgæðakapphlaupið, stress og hraði nútímans og öll sú klisja er alls ekki galin. Það er alveg auðveldast í heimi að missar sjónar af því sem er mikilvægast, og erfiðast í heimi að koma sjónar á það sem í rauninni gerir mann hamingjusaman.
Með þessum fleygu orðum segi ég mig skilið við þessa umræðu um nokkurt skeið.
Ætla að fara að einbeita mér að jákvæðari og uppbyggilegri hlutum.
Vona að þessi lesning hafi ekki drepið neinn úr leiðindum.
Ég reyndi að skrifa þennan pistil með jákvæðum huga og af sanngirni, vona að það hafi tekist.
Að lokum eru skilaboð til Ingvars: Þegar þú syngur “lovely place” í Hotel California þá áttu að spila B7 (H7) en ekki A-moll, þ.e.a.s. ef þú ert að spila lagið í E-moll. Lærðu nú lögin sem þú ert að spila elsku krúttið mitt eða hætti því og farðu að kenna Íslensku.
1 Comments:
stebbibollustrakur.blogspot.com is very informative. The article is very professionally written. I enjoy reading stebbibollustrakur.blogspot.com every day.
faxless payday loan
cash advance
Post a Comment
<< Home